Ríkisstjórnin á réttri leið.Hefur einhver séð úrræði stjórnarandstöðunnar?

Til að þjóðin nái sér uppúr öldudalnum verður atvinnulífið að fá að blómstra. það verður að gera eins og hægt er til að fyrirtækin nái að vaxa og dafna í framtíðinni.Nauðsynlegt er að starfsemi bankanna komist í eðlilegt horf og gjaldeyrisviðskipti verði eðlileg.

Allir sanngjarnir menn sjá að stjórnin er á fullu að vinna að því að ná tökum á vandanum. Stjórnarandstaðan gerir sér líka grein fyrir því að eftir því sem vikurnar líða munu kjósendur átta sig á því að stjórnarandstaðan hefur raunverulega ekkert lagt til málanna um hvernig leysa á þann gífurlega vanda sem uppi er.

Hvaða tillögur hefur Steingrímur J. og Vg boðað? Veit einhver hvernig þeir ætla að leysa vandann fái þeir forystu í ríkisstjórn? Eina sem við gætum jú alveg verið örugg með eru gífurlegar skattahækkanir.

Veit einhver hvað Framsóknarflokkurinn boðar til að leysa vandann? Það væri fróðlegt ef einhver gæti upplýst það. Mesta orkan hlýtur að fara í það að ná tökum og velja forystu í eigin flokki.

Veit einhver hvað 3/4 af Frjálslyndaflokknum ætla að gera til að leysa vandann. (Það er varla hægt að telja Kristinn H.Gunnarsson lengur til Frjálslyndra). Jú,þeir reyndar vilja auka fiskveiðikvótann, en hvað annað?

Það hefur svo rækilega sýnt sig á síðustu vikum að stjórnarandsstaðan hefur engar raunverulegar tillögur lagt fram,heldur eingöngu ýtt undir óánægju í þjóðfélaginu.

Það er t.d. fáheyrt að þingmaður VG skyldi taka þátt í óeirðum við lögreglustöðina. Haf menn virkilega trú á því að Álfheiður Ingadóttir yrði góður dómsmálaráðherra.

Síðustu daga Hefur leiðtogi stjórnarandstöðunnar og væntanlegur forsætisráðherra miðað við nýjustu skoðanakannanir aðallega verið í því að vera með hástemmdar upphrópanir. Svo langt hefur hann gengið að hann verður að biðja blinda og heyrnarlausa afsökunar á frumhlaupi sínu.

Enn hefur hann ekki beðið þjóðina afsökunar á "Éttann sjálfur" og uppákomunni á Alþingi samhliða þeirri upphrópun.

Er virkilega komið svo illa fyrir þjóðinni að hún óski eftir að Vinstri grænir verði í forystuhlutverki ríkisstjórnar ?

 


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Sigurður: Það stóð ekki á því að þú fengir málefnalegt svar eða hitt þó heldur, Ryan segir allt sem segja þarf um andstæðinga ríkisstjórnarinnar, þeir vilja ekki stinga upp á neinu, án þess að hafa reint vita þessir snillingar að það verður ekki á þá hlustað, rökfræði á háu plani hjá stjórnarandstæðingum, eins og fyrri daginn.

Magnús Jónsson, 2.12.2008 kl. 18:43

2 identicon

Góð ábending hjá þér Sigurður minn. Það er ljóst að stjórnarandstaðan (á þingi) hefur engar tillögur fram að færa og ætti auðvitað að sjá sóma sinn í að segja af sér og víkja þannig fyrir fólki með raunverulegar lausnir. Öllu verra er þó að stjórnin hefur heldur engar raunhæfar tillögur fram að færa. Það eina sem er í boði á þeim bænum eru gjaldeyrishöft, atvinnuleysi og gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja.

Allir sanngjarnir menn sjá að stjórnin ætlar að hunsa vilja þjóðarinnar um að axla ábyrgð og efna til kosninga. Stjórnin er rúin trausti landsmanna og sjálfstæðisflokkurinn er á hraðferð niður á smáflokkastigið, en hjálparkokkurinn situr fastur í stjórnarráðinu og hinn raunverulegi arkitekt þjóðarógæfunnar situr fastur á Svörtuloftum (undir vernd lífvarða).

Taktu nú vel eftir Sigurður minn: Þeir sem þverskallast við að fara að vilja þjóðarinnar á ögurstundu eru landráðamenn og þjóðníðingar. Í fyllingu tímans verður réttað yfir þeim sem slíkum.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 19:58

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sigurður spyr, "Er virkilega komið svo illa fyrir þjóðinni að hún óski eftir að Vinstri grænir verði í forystuhlutverki ríkisstjórnar ?".

Svarið er hrópandi JÁ! Ekki vegna þess að VG sé svo frábær flokkur eða fólk þar málefnanlegt. Það er svo illa komið fyrir þjóðinni vegna þess að flokkurinn þinn, með dyggri hjálp Framsóknar skapaði kerfi sem bauð upp á fullkomið efnahagshrun og leyfði því svo, með hjálp Samfó, að gerast. Fótunum hefur verið kippt undan heilli þjóð. Þúsundir hafa misst vinnuna nú þegar og við erum bara rétt að byrja. Hver fjölskylda skuldar heilt aukahús vegna bankareikninga sem það vissi ekki að voru til, en voru leyfðir af fólki tengdu ríkisstjórninni í sumar þegar auðséð var hvert stefndi. Þessi ósköp sem nú ríða yfir eru ekki eitthvert einkamál ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki einhver valdaleikur eða vesen sem verður gleymt fyrir kosningar. Það er verið að glopra niður sjálfstæði heillar þjóðar. Spillingin sem er að koma í ljós er svo hrikaleg að rithöfundar hafa fæstir hugmyndaflug til að búa hana til í bók.

Ef það að taka þátt í mótmælum gerir einhvern vanhæfan, vil ég vita hvað klúðrið gerir núverandi og fyrrverandi ráðherrum.

Villi Asgeirsson, 2.12.2008 kl. 20:58

4 identicon

Skil hreinlega ekki röflið í sjálfstæðismönnum þegar þeir röfla um að vinstrimenn séu ómálefnanlegir og orðljótir (orðljótir sbr blogg hjá Bjössa dómsmálaráðherra nýlega). Þið þurfið að fara að gera ykkur grein fyrir því að það er ekkert fallegt hægt að segja um þær ríkisstjórnir sem hafa undanfarin ár, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, kynnt undir ójöfnuði og spillingu hérna á landi.

Ég fæ ekki séð að Steingrímur J þurfi að biðja nokkurn mann afsökunar á "Ettann sjálfur" uppákomunni - það væri þá ansi margir sem mættu naga sápustykkið og skrúbba á sér kjafin. Davíð Oddsson kemur upp í hugann, brandarakallinn sjálfur, sem mætt hefur í ófá viðtölin þar sem hann talar niður til þjóðarinnar og hefur alltaf verið laginn á að snúa öllum umræðum upp í skæting ef það hentar honum. Geir Haarde kemur líka upp í hugann - hann sýndi til dæmis fáránlega framkomu gagnvart Pétri Matthíassyni fréttamanni í viðtali sem Pétur birti á blogginu sínu. Það er ekki hægt að segja að þessir tveir forkólfar komi sérlega vel fyrir, þó þeir hafi ekki sagt neinum að éta'ann sjálfur.

Magnús Pálsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 22:01

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, haldinn að Hótel Loftleiðum, 15. nóvember 2008

Stjórnmálaályktun

Núverandi staða

Íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir meiri vanda en það hefur nokkru sinni áður gert á lýðveldistímanum. Við blasir hrun bankakerfisins, algjört vantraust á gjaldmiðli þjóðarinnar, veruleg eignaskerðing lífeyrissjóðakerfisins, stórfellt atvinnuleysi og að skuldir heimila og fyrirtækja eru að sliga rekstur þeirra og framtíðarmöguleika. Ljóst er að mikill halli mun verða á fjárlögum ríkissjóðs og að skuldir hans munu margfaldast á næstu árum.

Ólögmætar árásir bandalagsþjóða á íslenska hagsmuni eru fordæmalausar og ólíðandi, enda eiga samskipti við nágranna- og viðskiptaþjóðir að grundvallast á þeim alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að. Nauðsynlegt er að stjórnvöld landsins standi fast gegn öllum öðrum kröfum en þeim sem þjóðinni ber lögum samkvæmt að gangast undir og hiki ekki við að leita niðurstöðu dómstóla ef þurfa þykir.

Við þessar aðstæður er óþolandi með öllu að við völd situr ríkisstjórn sem, þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta, er ósamstíga og sundurleit. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ástundað vinsældakapphlaup í stað ábyrgrar samstöðu á erfiðum tímum og nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda reka á reiðanum. Framsóknarmenn hafa í rúmt ár varað mjög við þeirri stöðu sem þjóðarbúið er nú komið í og þeim óveðursskýjum sem stefndu að landinu erlendis frá. Þannig lýsti forsætisráðherra því m.a. í skýrslu sinni um efnahagsmál 2. september s.l. að þær efnahagsþrengingar sem væru framundan „væru vissulega krefjandi verkefni en ekki neyðarástand eða raunveruleg kreppa eins og Íslendingar kynntust fyrr á árum” og að við þyrftum „öll að búa okkur undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt um hríð”. Skyldi forsætisráðherra enn vera sömu skoðunar? Miðstjórn Framsóknar lýsir því yfir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni á alvarleika þeirrar stöðu sem efnahagslífið er nú komið í vegna afneitunar og aðgerðaleysis þeirra og ekki síst samstöðuleysis á ögurstundu.

Nauðsynlegar aðgerðir

Þrátt fyrir mikil áföll er Ísland land tækifæranna og framtíðin er björt, ef rétt er haldið á málum. Endurreisa þarf traust milli ríkisstjórnar, Alþingis, stofnana þjóðfélagsins og þjóðarinnar. Miðstjórn Framsóknar varar sterklega við því að brugðist verði við núverandi efnahagskreppu með höftum,  hækkun skatta eða öðrum þeim aðgerðum sem hindra kunna viðskipti eða fjármagnsflutninga milli landa. Framsóknarflokkurinn telur að á næstu vikum og misserum sé mikilvægt að ráðist verði í viðamiklar skammtíma- og langtímaaðgerðir til styrktar almenningi og fyrirtækjum í landinu. Brýnustu aðgerðir eru eftirfarandi:

·         Uppbygging markvissrar útflutningsstefnu í atvinnulífinu. Íslendingar eru háðari alþjóða-viðskiptum en flestar aðrar þjóðir. Framtíðarhagvöxtur Íslands þarf að byggjast á útflutningi vöru og þjónustu sem tekur mið af hæsta mögulega virðisauka í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Einn mikilvægasti þáttur í útflutningsstefnunni þarf að vera stuðningur við nýsköpun í gegnum rannsóknar- og þróunarstarf innan veggja fyrirtækja, háskóla og opinberra stofna.

·         Hlúa þarf að innlendri framleiðslu landbúnaðarvara. Ljóst er að þeir umbrota- og óvissutímar sem nú ríkja kalla á ný sjónarmið varðandi landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Miðstjórn Framsóknarflokksins minnir á nauðsyn þess að íslenskur landbúnaður búi við þau starfsskilyrði að hann geti framleitt og tryggt þjóðinni helstu nauðsynjar á sviði matvæla.

·         Mikilvægt er að ekki verði hróflað við stjórnkerfi fiskveiða við núverandi aðstæður. Miðstjórn telur samt nauðsynlegt að unnið verði að aðlögun kerfisins að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að búa við öryggi hvað varðar rekstrarumhverfi að svo miklu leyti sem hægt er. Veiðar, vinnsla og útflutningur sjávarafurða gegna lykilhlutverki í að leiða þjóðina upp úr þeim djúpa öldudal sem hún er nú í.

·         Marka þarf nýja stefnu í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Ljóst er að mikið vantraust ríkir á íslensku krónunni. Sú staða kann að vera uppi nú að Íslendingar hafi ekki annan valkost en að hefja viðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu, gengisstöðugleikasamning við evrópska seðlabankann og í framhaldinu upptöku evru sem gjaldmiðils. Þetta verður Framsóknarflokkurinn að meta og fara yfir við núverandi aðstæður. Þangað til það gerist er hinsvegar mikilvægt að allt verði gert sem mögulegt er til að styrkja tiltrú á íslensku krónunni, þar sem ljóst er að nota verður hana sem gjaldmiðil í innlendum viðskiptum þjóðarinnar næstu misseri eða ár. Jafnframt bendir flest til þess að áframhaldandi notkun krónunar muni að nokkru leyti að auðvelda þá aðlögun sem nauðsynleg er í íslensku efnahagslífi.

·         Skoða þarf allar mögulegar leiðir til að afnema hina umfangsmiklu vísitölubindingu sem nú ríkir í fjármálakerfinu, t.d. með gerð tímabundinna vaxtaskiptasamninga. Ekkert þróað hagkerfi býr við jafn umfangsmikla vísitölubindingu og hið íslenska. Ljóst að áframhaldandi notkun hennar mun verulega takmarka notkun þeirra hagstjórnartækja sem við höfum til að ná hagkerfinu upp úr efnahagslægðinni. Samtímis er hinsvegar nauðsynlegt að benda á mikilvægi þess að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda í þjóðfélaginu, þar sem innlendur sparnaður verður undirstaða fjárfestinga í atvinnulífinu á næstu árum.

·         Huga þarf vel að börnum og fjölskyldum landsins. Ríki og sveitarfélög eiga að leita leiða til þess að fjölskyldan og einstaklingarnir geti borið höfuðið hátt og haldið reisn sinni í þeim erfiðleikum sem að steðja. Ber að skoða ítarlega þá kosti sem í boði eru til að létta undir með fjölskyldum landsins, eins og að bjóða skuldbreytingu á vísitöluhækkun lána næstu 12 mánuði. Miðstjórn Framsóknar getur ekki lagt nægjanlega áherslu á að sveitarfélögunum verði gert mögulegt að sinna sínum mikilvægu nærþjónustuverkefnum sem sífellt verður meir þörf fyrir og hugsanlega þarf að útvíkka t.d. með fríum skólamáltíðum og endurgjaldslausum námsgögnum handa öllum börnum á grunnskólaaldri og lækkun kostnaðar við  dagvistun.

·         Ráðast þarf strax í endurskipulagningu bankakerfisins með það að markmiði að koma eignarhaldi þeirra sem fyrst úr eigu ríkisins. Mikilvægt er að við sölu bankanna verði sérstaklega gætt að því að slíkt ferli verði gegnsætt og tryggi hagsmuni almennings í landinu og bendir á kosti þess að hluti bankakerfisins sé í erlendri eigu.

·         Miðstjórn Framsóknarflokksins krefst þess að settar verði skýrar og gegnsæjar reglur um hvernig farið verður með afskriftir skulda og skuldbreytingar viðskiptavina nýju ríkisbankanna og varar sterklega við þeirri hættu sem hefur skapast að eignum ríkisbankanna kunni að verða ráðstafað á grundvelli pólitískra tengsla en ekki á viðskiptalegum forsendum.

·         Leggja þarf áherslu á að lífeyrissjóðir landsins fjárfesti í auknu mæli í íslensku atvinnulífi, t.d. með fjármögnun íslenskra orkufyrirtækja.

·         Efla þarf starfsemi Íbúðarlánasjóðs t.d. með því að rýmka reglur um endurbótalán til einstaklinga og sveitarfélaga til viðhalds á eigin húsnæði. Hinsvegar ber að varast að leggja á Íbúðalánasjóð of þungar byrðar með yfirfærslu lána úr bankakerfinu sem fóru langt fram yfir veðheimildir og hámarkslán eins og þau voru á hverjum tíma.

·         Leggja þarf í sérstakt átak til að bæta ímynd Íslands erlendis með markvissu kynningarstarfi. Ljóst er ímynd Íslands hefur borið mikinn hnekki á undanförnum vikum og allskyns ranghugmyndir eru í gangi um hver sé ábyrgð ríkissjóðs Íslands á skuldbindingum sem íslensku bankarnir sem einkafyrirtæki stofnuðu til erlendis. Ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða nú þegar er hætta á að viðskiptahagsmunir annarra íslenskra fyrirtækja og alls óskildra kunni að skaðast verulega.

Miðstjórn Framsóknar varar við þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur fram til stuðnings fjölskyldum og heimilum í landinu. Vammlaust fólk leggur mikið á sig til að standa við skuldbindingar sínar á erfiðum tímum.  Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hvetja til vanskila í stað þess að gera fólki auðveldara að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Í raun er ríkisstjórnin að hvetja til viðskiptalegs siðrofs og vanskila sem leið út úr vandanum. Leið ríkisstjórnarinnar, að gera stóran hluta þjóðarinnar að vanskilamönnum, er alger uppgjöf gagnvart verkefninu.

Gestur Guðjónsson, 2.12.2008 kl. 22:56

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Varðandi hugmyndir um það, að hægt sé að taka upp viðræður um ESB, um skjóta aðild að Evrunni, þá get ég ekki annað en gapað af undrun yfir vitleysunni. Þekkir maðurinn ekki skilyrði ERM II? Af hverju ættu þjóðir, eins og Pólverjar - sem eru aðilar að ERM II en ekki komnir með Evruna, að gefa Íslandi leyfi til að fá einhverja flýtimeðferð inn í Evruna? Ég bendi á, að Pólland er nefnt aðeins sem dæmi, það eru fleiri aðildalönd ESB sem eru í sambærilegri stöðu við Pólland. Ég bendi einnig á, að aðildarsamning við nýtt land, þar enn að samþykkja af öllum aðildarþjóðum. Fyrir neðan lími ég síðan part af mínum skrifum annars staðar:

  • A) Verðbólga ekki meira en 1,5% hærri heldur en verðbólgan á Evrusvæðinu. B) Árlegur halli ríkisútgjalda ekki meira en 3% fjárlagaárið á undan. C) Skuldir ríkisins ekki hærri en 60% af þjóðarframleiðslu fjárlagaárið á undan. D) Land sem í hlut á, skal hafa verið meðlimur í gjaldmiðlasamstarfi Evrópusambandsins (ERMII) í 2 ár a.m.k. og gengið skal ekki hafa fallið yfir það tímabil. E) Meðalvaxtastig skal ekki vera meira en 2% hærra heldur á Evrusvæðinu.
  • Augljóslega, í ljósi skulda ríkissjóðs nú áætlaðar að lágmarki um 1,5 þjóðarframleiðsla og það miðast við það mat að við eigum raunverulega miklar upphæðir inni á eignasafni þrotabúa bankanna, verðbólga sem nálgast 18%, vexti sem standa nú í 18% en verða líklega hækkaðir í 20%; mun það taka umtalsvert langan tíma að uppfylla skilyrði ESB um Evruna. Að lágmarki verður að gera ráð fyrir 10 árum, einkum vegna skuldanna. Hugsanlega 15 – 20 ár. Þannig að Evra er ekki lausn á næstunni. Á móti, er hægt að taka upp Dollar, þessvegna þegar eftir næstu áramót.
  • Af öllu þessu sést, að ef menn hugsa sér að flýta sem mest efnahags bata Íslands, er Evra augljóslega ekki valkostur á næstur árum, lágmarksskilyrði ERM II kveða á um +/- 15% vikmörk, þ.e. gengissveiflur geta orðið allt að á milli 20 – 30 prósent, ef þær eiga sér stað beggja megin við viðmiðunargengið, án þess að ECB (European Central Bank) skipti sér af málum. Þannig, að það er all nokkuð orðum aukið að þegar við inngöngu í ERM II muni gengisjafnvægi nást. Það rétta er að jöfnun gengissveiflna, og nálgun Evruskilyrða, verður löng en einnig dýr barátta, því einungis með gríðarlegum kostnaði sem varið væri til að verja hana öllum sveiflum sem krefðist stórs gjaldeyrisvarasjóðs, sem ausa þyrfti fé í reglulega, væri smám saman hægt að temja sveiflur krónunnar niður, Augljóslega, sé upptaka Dollars, miklu mun skjótvirkari aðferð, en síðast en ekki síst; miklu, miklu mun ódýrari. Það er enginn vafi á að það sé fær leið að taka upp Dollar. Jákvæð áhrif þess að fá sterka alþjóðlega mynnt geti fengist þegar frá næstu áramótum. Þetta sé einfaldlega þjóðþrifamál sem allir ættu að geta tekið undir.

Mín skoðun, er að farsælast geti verið að taka upp Dollar.

Einar Björn Bjarnason

Einar Björn Bjarnason, 3.12.2008 kl. 01:37

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ríkisstjórnin stendur ráðþrota á rústum íslensk þjóðfélags og vill lafa áfram af því að hinir séu ekkert betri.

Færeyingar voru í mikilli fiskveiði- og bankakreppu en leystu hana með því að afnema kvótakerfið. Núna eru þeir skuldlausir og aflögufærir. 

Sigurður Þórðarson, 3.12.2008 kl. 09:09

8 identicon

Já, ég myndi treysta Álfheiði sem dómsmálaráðherra, engin spurning. Hún var á staðnum þegar ráðist var inn á lögreglustöðina og hlúði að þeim sem höfðu fengið piparúðan beint framan í sig. Geri Björn Bjarna betur. Eða er nóg í þínum huga að vera úrskurðaður glæpamaður fyrir það að mæta í mótmælastöðu? Því þá eru ansi margir glæpamenn sem ganga lausir á Íslandi. En ég hef heyrt að Björn Bjarna haldi vel utan um skrásetningu þeirra svo það er kannski ekki langt að bíða að lögreglan fari að pikka þá upp.

Anna (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 10:49

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ætla að gefa mér að þær þúsundir sem mætt hafa á mótmælafundi undangengnar vikur séu fulltrúar þeirra 90% þjóðarinnar sem lýst hafa vantrausti á Davíð Seðlabankastjóra s.kv. skoðanakönnunum. Ég gef mér að þeir séu líka fulltrúar þeirra 70% sem ekki treysta ríkisstjórninni og biðja hana að yfirgefa Stjórnarráðið.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum voru forystumenn hennar stoltir af að hafa fengið umboð frá þjóðinni fyrir 43, þingmanna meirihluta á Alþingi.

Þegar mál hafa snúist á þá lund að nú biður stór meirihluti þjóðarinnar um leyfi til að fela nýju fólki umboð sitt þá kalla forystumenn stjórnarflokkanna þetta fólk "lýðinn" eða "skrílinn!" Niðurstaða:

Þeir kjósendur sem fyrir 18 mánuðum voru "skýr meirihluti" þjóðarinnar eru af einhverjum óljósum orsökum allt í einu orðinn "lýðurinn!" Samkvæmt nýjustu fréttum fjölmiðla mun þessi ríkisstjórn ekki treysta sér til að hverfa frá störfum fyrr en búið verður að koma þrotabúum gömlu bankanna í hendur þeirra sem treysta má til að standa fast í ístöðunum til að vernda "bankaleyndina" sem er öllu öðru mikilvægara í augum tiltekinna áhrifamanna. (Kaupþing í Lúx og Glitnir í Noregi) Eigum við ekki bara að láta gott heita og gleyma þessum 7 milljörðum sem týndust í bókhaldi Glitnis fáum dögum fyrir hrunið,-sem enginn sá fyrir?

XD og ekkert helv. múður. 

Árni Gunnarsson, 3.12.2008 kl. 12:48

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

http://zeriaph.blog.is/users/a3/zeriaph/img/geir.jpg

Sigurður Þórðarson, 3.12.2008 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Jónsson

Höfundur

Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson

Hefur mikla reynslu í pólitík, sveitar-

stjórnarmálum og blaðaskrifum.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband