Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn?

Hún er ansi sterk skopmyndin í Fréttablaðinu í dag. Myndin sýnir Ragnheiði Ríkharðsdóttur ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en við kjörkassann sitja Davíð,Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson og segjast ekki taka við atkvæðum nema frá sönnum Sjálfstæðismönnum.

Í 85 ára sögu Sjálfstæðisflokksins hefur það verið styrkur hans að rúma fleiri en eina skoðun  á málum. Flokkurinn hefur sýnt umburðarlyndi og talað sig að niðurstöðu eða afgreitt með á lýðræðislegan hátt. Nú hafa ný vinnubrögð náð fótfestu og flokkurinn sveigður langt til hægri,þannig að mikill fjöldi hefur yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn. Það á að vera áhyggjuefni en ekki afgreiðast að það sé gott að grisja. Við sem höfum í gegnum árin viljum fá gamla góða Sjálfstæðisflokkinn aftur.

Nú fannst mörgum fyrir síðustu kosningar að formaðurinn og forystan væru að stíga skref til sátta í ESB málinu. Því var lofað hátíðlega að þjóðin fengi að ákveða hvort halda ætti viðræðunum við ESB áfram eða ekki. Bjarni formaður tók meira að segja svo sterkt til orða að atkvæðagreiðslan ætti að fara fram fyrri hluta kjörtímabilsins. Bjarni formaður undirstrikaði skoðun sína á að þjóðin fengi að kjósa um málið með því að segja: og við það verður staðið.

Það hlýtur að vera krafa grasrótarinnar í Sjálfstæðisflokknum að fylgishrunið verði rætt. það er örugglega vilji margra að gamli umburðarlyndi og frjálslyndi Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram til. Ætli forystan ekki að hllusta mun flokkurinn ekki aftur ná sinni fyrri stærð heldur verða 15-20 % öfga hægri flokkur. Það er ekki góð þróun fyrir landsmenn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Sigurður, fjöldi manns hætti við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í fyrra vegna ístöðuleysis forystunnar í fullveldismálinu, það kom oft fram.  Verður pínulítill minnihluti að fá að valta yfir landsfund flokks þó einn og einn stjórnmálamaður hafi lofað út í loftið?

Elle_, 29.4.2014 kl. 19:26

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er mergur málsins.Fyrir kosningar var tvístigið og rætt hvort treysta mætti ,ákveðni, forystumanna,gengið á framboðsfundi og hlustað á svör þeirra við fyrirspurnum. Við sem erum alfarið á móti Esb-inngöngu,viljum sjá kjark og þor til að framfylgja stefnu landsfunda flokkanna.

Helga Kristjánsdóttir, 29.4.2014 kl. 20:58

3 Smámynd: Sigurður Jónsson

Ég er á móti að Ísland gangi í ESB. Það gengur samt ekki að menn gefi út loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu rétt fyrir kosningar og svíkja það svo strax eftir kosningar. Þjóðin á að ráða framhaldinu.

Sigurður Jónsson, 29.4.2014 kl. 21:41

4 Smámynd: Elle_

Sigurður, ég er sammála fyrri hlutanum, um loforðin sem verða svo strax svikin.  Hinsvegar hafði Bjarni bara ekkert umboð frá flokkinum til að lofa gegn landsfundi (eins og Helga og þú getið ekki lofað neinum að gefa köttinn minn).  Líka, þetta var ólýðræðisumsókn sem ætti bara að stoppa. 

Elle_, 29.4.2014 kl. 22:02

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Hringrök sjálfstæðismanna um hinn "litla minnihluta" ESB sinna í flokknum samkvæmt síðustu skoðanakönnunum líta alveg framhjá því að fylgi flokksins er núna 1/3 minni en það var fyrir síðasta landsfund. Þessi horfni þriðjungur hefur trúlega haft aðra afstöðu til ESB.

Um þetta snýst vandi sjálfstæðismanna: Tæpur helmingur þjóðarinnar vill í ESB, 2/3 þjóðarinnar vill láta reyna á samning. Fylgi við ESB er meira í miðju og til hægri en til vinstri.

Hægrisinnaður flokkur sem tekur einarða afstöðu gegn ESB undir þessum kringumstæðum á auðvitað von á að missa þriðjungs til helmings fylgis.

Svo virðist sem þeir sem eftir sitja í Sjálfstæðisflokknum séu bara sáttir við þetta og vilji meira að segja losa sig við enn fleiri, grisja flokkinn eins og einhver nefndi það. Þannig að í framtíðinni má reikna með því að Sjálfstæðisflokkur verði svona c.a. 1/5 flokkur á borð við VG, Framsókn og Samfylkingu.

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.4.2014 kl. 06:15

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er miklu meira en ESB málið og kosningasvikin í sambandi við það sem er að fæla fólk frá Sjálfstæðisflokknum.  Þáttur flokksins í Hruninu hefur aldrei verið viðurkenndur af forystunni eða gerður upp á nokkurn hátt. - Þjóðlendumálin, þar sem Geir H. Haarde fylgdi eftir ofstækisfullri stefnu í því að sölsa landareignir manna undir ríkið. - Svívirðileg skattastefna á stjórnartíma Davíðs, þar sem sífellt var verið að lækka skattleysismörkin þannig að bótaþegar og láglaunafólk ber orðið heilmikla skatta.  (Sýnist Bjarni Ben. ætla að fylgja þeirri stefnu Foringjans dyggilega. - Nema hvað) - Árátta til að einkavæða ómissandi almannaþjónustu, sem enginn getur verið án. - Dekur við þá sem mest hafa milli handanna. Kemur sérstaklega illa út núna þegar stór hluti af fjölskyldum landsins berst í bökkum eftir Hrunið.  Og þetta er skrifað af einum hinna ótalmörgu brottflúnu Sjálfstæðismanna, sem ekki eiga lengur samleið með flokknum.

Þórir Kjartansson, 30.4.2014 kl. 08:25

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gleymið ekki svikum Bjarna Ben. og flestra þingmanna flokksins í Icesave-málinu.

Ólíkt Sjálfstæðisflokki fekk Framsóknarflokkur mörg þakklát atkvæði vegna þess máls.

Svik Bjarna í ESB-málinu, með ábyrgðarlausu hjali kringum síðustu kosningar, þrátt fyrir skýra stefnu landsfundarins gegn ESB-umsókninni, staðfestu það enn (til viðbótar við "kalda matið" hans gegn landsfundi og gegn þjóðarhag í Icesave-málinu), að hann er eitthvað staðfestulaus, greyið, en virðist þó því miður hafa marga í þingflokknum me sér í bandi.

Og Brynjólfur, hættu að falsa. Milli 2/3 og 3/4 landsmanna og um 90% sjálfstæðisflokks-fylgjenda vilja EKKI inn í Evrópusambandið

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 11:41

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hjörtur J. Guðmundsson ritaði í Mbl. 25. þessa mánaðar:

"Ekkert er einfaldlega því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin dragi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka. Það liggur beinast við. Ríkisstjórnin er andvíg inngöngu í Evrópusambandið, ekki er meirihluti fyrir inngöngu á Alþingi og meirihluti þjóðarinnar vill ekki í sambandið. Taka þarf málið af dagskrá og það verður einungis gert með þeim hætti."

Nánar hér: http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1506705

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 11:46

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þótt Bjarni Ben. sé fjallmyndarlegur, enda íþróttamaður, og nefsmæð hái honum alls ekki, hefur pólitískt nefbeinsleysi hans komið æ skýrar í ljós. Það gerði það í grein hans og Illuga um árið, í 2. lagi í "ísköldu" afstöðunni hans gegn lagalegum rétti þjóðarinnar, í 3. lagi kringum síðustu kosningar í ESB-blaðri hans utan flokksreglna. Herfilegt yrði, ef hann í 4. sinn bregzt og þá með því að heykjast á afturköllun ESB-umsóknarinnar af ótta við jafn-ómerkilegt fyrirbæri og Samfylkinguna og fjölmiðlamenn sem svíkjast um í vinnunni með einhliða síbyljuáróðri.

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 11:58

10 Smámynd: Elle_

Fjöldi andstæðinga hætti við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í fyrra, Brynjólfur, þegar Bjarni fór að lýsa sinni einkaskoðun, ekki flokksins, að kosið yrði um ólýðræðisumókn Össurar og co.  Það gengur ekki að lítill og yfirgangssamur minnihluti (ekki tæpur helmingur þjóðarinnar, vegna þess að tæp 70% vilja þetta ekki) ráði.

Elle_, 30.4.2014 kl. 11:58

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rétt, Elle, og ekki gat ég krossað við D, af ótta við að Bjarni í svikum sínum hefði betur en flokkurinn. Ég kaus m.a.s. vinstri flokk, Regnbogann! -- rétt eins og margir mið- og hægrimenn kusu VG 2009 vegna loforða Steingríms J. (þess erki-kosningasvikara) um að VG væri á móti því að sækja um ESB-aðild!

Hér er ýmislegt rakið úr frábærri Mbl.grein Bergþórs Ólasonar á vef Heimssýnar: Öllu snúið á hvolf. Sigurður hefur gott af að lesa alla greinina -- og líka aðra eftir Óla Björn Kárason í Mogganum í dag.

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 12:07

12 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jón Valur, þakka þér fyrir að benda mér á "falsanir" mínar. En nýjustu skoðanakannanir benda víst til þess að yfir helmingur Reykvíkinga vilji ganga í ESB, en á landsvísu 42%. Ekki hef ég nefnt einu orði að það sé eitthvað annað en 90% núverandi stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins sem vilji ganga í ESB.

Stuðningur við inngöngu í ESB hefur lengi legið um 1/3 en fer núnan vaxandi. Andstaðan hefur, skv. MMR, mest farið í 2/3 en er núna tæpur helmingur þ.a. andstaðan hefur aldrei verið "3/4" eins og þú segir.

Miðað við að tæpur helmingur er andstæður (og þeir flestir á landsbyggðinni) er ekki óraunsætt að segja að með harðri andstöðu gegn ESB hafi Sjálfstæðisflokkurinn losað sig við minnst þriðjung ef ekki helming "hefðbundins" fylgis.

2010 voru um 3/4 stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins andvígur aðild skv. Gallup, en fylgi flokksins var þá tæp 40%. Það er magnað að sjá hvernig fylgið hrapar eftir landsfundinn 2013 (http://www.capacent.is/rannsoknir/thjodarpulsinn/).

Í janúar 2013 var fylgið tæp 36% og hafði rólað í kringum þá tölu frá júlí 2010. En í mars 2013 er fylgið komið í 24%. Landsfundurinn losaði sem sagt flokkinn við rétt um 1/3 fylgisins. Varnaraðgerðir Bjarna Ben (loforð um kosningar, grátur í sjónvarpssal), náðu að hala fylgið upp í tæp 27%, en samkvæmt nýjustu MMR könnun er fylgið núna komið niður í 24% aftur.

Þetta er sama fylgi og í kosningunum 2009!

Hin nýja söguskýring, ættuð úr Hádegismóum, að það megi með einhverjum hætti skýra fylgistapið með Icesave málinu stenst auðvitað ekki - fylgið tók reyndar smá dýfu þar (niður í 33%), en rétti svo aftur úr kútnum. Hið athyglisverða við hina nýju Hádegismórasöguskýringu er að hún er óvægin árás á sitjandi formann, sem auðvitað ber ábyrgð á afstöðu flokksins til Icesave.

En afstaða flokksins til ESB er ekki á ábyrgð Bjarna Ben, þó ég sé sammála þér að hann mætti óneitanlega hafa eitt eða fleiri auka bein í nefinu.

Hádegismóri virðist hins vegar stefna að því að gjöreyðileggja eigin flokk með afbragðs árangri - ekki að ég gráti það!

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.4.2014 kl. 13:33

13 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Elle, ertu að segja að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafi hætt við að kjósa flokkinn - eða að andstæðingar ESB hafi hætt við að kjósa flokkinn? Ef þú lest það sem ég skrifa hér að ofan þá sérðu að við erum sammála, alla vega ef síðari skilningurinn er réttur.

Andstaða við ESB hefur aldrei náð 70%, en farið mest í um 66% skv. MMR. Hún er núna innan við 50%. Andstaðan er mest á landsbyggðinni, en kjósendur Sjálfstæðisflokks flestir á höfuðborgarsvæðinu. Hún er einnig mest meðal vinstri manna. Þ.a. hörð afstaða gegn ESB höfðar til vel innan við 50% af markhóp Sjálfstæðisflokksins.

En það er allt í lagi - Sjálfstæðisflokkurinn leitar aftur til róta sinna, sem fulltrúi sjávarutvegsins. Andstaða við ESB er eðlilegur hluti þess.

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.4.2014 kl. 13:38

14 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jón Valur, ég sneri víst einhverju við - ég ætlaði ekki að gefa í skyn að 90% núverandi stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vildu ganga í ESB - kannski frekar þvert á móti!

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.4.2014 kl. 13:38

15 Smámynd: Elle_

Tæp 70% vilja þetta ekki, sagði ég nú, Brynjólfur.   Nei, ég var ekki að tala um að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafi hætt við að kjósa flokkinn, það ætti að alveg að skiljast.  Og nei, við erum ekki sammála, þú skrifaðir sjálfur í no. 5: Þessi horfni þriðjungur hefur trúlega haft aðra afstöðu til ESB.  Meðan ég var tala um horfna andstæðinga þessa bákns úr flokknum.

Elle_, 30.4.2014 kl. 14:10

16 Smámynd: Elle_

Niðurstaðan þín er bara röng.  Það eru ekki andstæðingar fullveldisframsals sem eru að skemma Sjálfstæðisflokkinn, fullveldið var stefna hans.  Það er slappleiki núverandi forystu sem er um að kenna, ekki maðurinn sem þú kennir um og nefnir þó ekki.  Hann var algerlega fastur fyrir.

Elle_, 30.4.2014 kl. 14:50

17 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Ella, þú setur samasemmerki milli fullveldisafsals og ESB. En það gera bara alls ekki allir. Svo seturðu samasemmerki milli nafnsins "Sjálfstæðisflokkur" og einhverrar sjálfstæðisbaráttu í nútímanum. En það gera alls ekki allir. Þannig að það er bara rökrétt í þínum huga, og annarra sem eru með sömu samasemmerki, að það sé óhugsandi að andstaða við ESB hafi slæm áhrif á Sjálfstæðisflokkinn.

En við erum greinilega sammála um að fylgið sem hefur horfið af Sjálfstæðisflokknum hafa verið andstæðingar "þessa bákns". Þar sem Bjarni var upphaflega volgur fyrir ESB, en Davíð harður á móti (og sú stefna varð ofaná) þá er ekki hægt að kenna Bjarna um fylgistapið. Það var augljóslega landsþing í febrúar 2013 sem reytti fylgið af flokknum, og helstu tíðindi þar var ESB.

Skoðaðu línuritið sem ég vísa til í færslu 12. Landsfundurinn færði fylgið úr 36% í 24% á einum mánuði!

Að Davíð Oddsson sé fastur fyrir, það efast ég ekki um. En það er ekki alltaf sniðugt í stjórnmálum að vera fastur fyrir. Sérstaklega þegar nokkuð innan við helmingur hugsanlegra kjósenda eru sammála þeirri stefnu sem maður er fastur fyrir! Ég endurtek: Innan við helmingur hugsanlegra kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru andstæðingar ESB aðildar.

En núverandi ótrúleg staða Sjálfstæðisflokksins, þar sem logar allt á yfirborðinu í innanflokksátökum (algjört fádæmi), fylgið í algjöru lágmarki, formaðurinn rúinn trausti og fjölmargir áhrifamenn innan Flokksins að undirbúa nýjan flokk honum til höfuðs - ja þessi núverandi skelfingarstaða er vissulega Bjarna Ben að kenna.

Hann átti auðvitað aldrei að samþykkja ESB þingsályktun Framsóknar! En það virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn. Þetta eru auðvitað söguleg tíðindi, Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið risi íslenskra stjórnmála frá því ég man eftir mér, og gott lengur. En er núna orðinn að litlum einsmálefnisflokki!

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.4.2014 kl. 15:33

18 Smámynd: Elle_

Jú, mér finnst það kostur að stjórnmálamaður standi í lappirnar en fjúki ekki um eins og blað í vindi.  Og þú mislest enn það sem ég skrifaði, eða þú setur mér orð í munn.  Þú kennir andstæðingum Brusselbáknsins um fylgistap Sjálfstæðisflokksins, það geri ég ekki, heldur ístöðuleysi og slappleika forystunnar, ekki fyrrverandi (nema Svartstakkurinn hjálpaði við það síðast).

Elle_, 30.4.2014 kl. 15:50

19 Smámynd: Elle_

Verð að bæta við að mér finnst það nauðsynlegt að stjórnmálamaður standi í lappirnar.

Elle_, 30.4.2014 kl. 15:55

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er nýkominn að tölvunni -- anza blekkingum Brynjólfs bráðlega.

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 19:56

21 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þegar þú segir "að yfir helmingur Reykvíkinga vilji ganga í ESB, en á landsvísu 42%," gætu margir misskilið það svo, að landsbyggðarfólkið ("úti á landi") skiptist í 58% á móti ESB-inntöku Íslands, en 42% með henni. En það er ekki svo, heldur er andtsða landsbyggðarfólksins langtum meiri en svo. Af allri þjóðinni mælast 42% nú veikir fyrir ESB-inntöku landsins, en það er reyndar óvenjuhátt miðað við fyrri kannanir almennt og helzt trúlega í hendur við ósvífna áróðursherferðina í Rúv o.fl. fjölmiðlum. (Frh.)

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 20:02

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Í skoðanakönnun Capacent Gallup birtri 6.3. 2013 var spurt um hvernig menn kysu, ef þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram "núna", og þá sögðust 30% vilja, að Ísland gengi í Evrópusambandið, en 70% sögðust myndu segja NEI.*

Af þessu sést, að Brynjólfur fer með FLEIPUR, þegar hann fullyrðir: "Andstaða við ESB hefur aldrei náð 70%, en farið mest í um 66% skv. MMR."

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 20:41

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

13. febr. 2013 birti MMR niðustöðu skoðanakönnunar um afstöðu til inngöngu í ESB. Þá vildu (aðeins) 24,2% slíka inngöngu, 63,3% EKKI, en 12,5% voru óákveðnir. Þegar aðeins eru taldir þeir, sem afstöðu tóku, vildu 27,7% inngöngu í ESB, en 72,3% vildu EKKI inngöngu í ESB.

Einnig skv. þessu fór Brynjólfur með FLEIPUR, jafnvel einmitt um það sem hann segir um MMR-kannanir. Ég kalla það, að hann fari með fleipur, en ber ekki á hann vísvitandi lygi, enda getur hann bara verið svona illa upplýstur. En þá ætti hann líka að láta ógert að blaðra um þessi mál.

Niðurstöður þessarar o.fl. skoðanakannana sjást á Wikipediu-vefsíðu, í kafla þar, sem er hér: en.wikipedia.org/wiki/Accession_of_Iceland_to_the_European_Union#Public_opinion

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 20:52

24 Smámynd: Jón Valur Jensson

23. apríl 2013 birtist könnun Félagsvísindastofnunar HÍ um afstöðu til inngöngu í ESB. "Rúmur fjórðugur þeirra sem tók afstöðu var mjög (11,4) eða frekar (16,2) fylgjandi inngöngu í sambandið. Tuttugu prósent sögðust hlutlaus en rúmur helmingur sagðist frekar (20,5) eða mjög (31,7) mótfallinn inngöngu."*

Takið sérstaklega eftir þessu um afstöðu hinna andstæðu hópa, hvað það varðar hvort menn sé "mjög" eða "frekar" fylgjandi eða mótfallnir inngöngu í Evrópusambandið. Sjáið þarna, hvernig hinir eindregnu í "já-hópnum" eru í verulegum minnihluta innan þess hóps, en aftur á móti hinir eindregnu (þ.e. mjög mótföllnu ESB-aðild) í NEI-hópnum eru þar í miklum meirihluta!

Ef við svo sleppum þeim, sem eru hlutlausir í þessari könnun (20,2%), þá er skiptingin meðal þeirra aðspurðu, sem tóku afstöðu, þannig: ESB-inntökusinnar eru 27,6% af heildinni, en 34,6% af þeim, sem afstöðu tóku. NEI-sinnar eru þar 52,2% af heildinni, en 65,4% af þeim, sem afstöðu tóku. Og eins og fyrr var sagt, eru hinir eindregnu ESB-inntökuandstæðingar í miklum meirihluta innan NEI-hópsins (yfir 3/5 hópsins).

* http://www.ruv.is/frett/meirihluti-vill-halda-afram-vidraedum

Jón Valur Jensson, 30.4.2014 kl. 21:09

25 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ekki alltaf sniðugt að vera fastur fyrir í stjórnmálum segir Brynjólfur,en vist er það kostur,ef við gefum okkur að maðurinn hafi greind og aðlögunarhæfni,í því sambandi að þvinga ekki meðherja til fylgilags við sína skoðun í stjórnun,en krefja hann og alla um að halda stefnu stjórnarinnar í samsteypustjórn. Það var nú ekki svo í ofbeldisstjórninni 2009. --Þótt Sjálfstæisflokkurinn hafi dalað í skoðanakönnunum,er það bara undravert hve þeir halda velli,með hælbítana út um alla ljósvakamiðla hvort sem þeir eru ríkisreknir eður ei...Marga skiptir það engu máli,finna enga sök, þótt þeir (hælbítarnir) breiði út áróður sem er endaleysa, lygi. Hvað ætli það skili mörgum % er fólk heldur að hægt sé að halda áfram að opna kafla,sem utanríkisnefnd hefur skilyrt og Sjált Esb-ið neitar að ganga að. Þarf eitthvað að ræða fylgishrunið sem er bara ekkert,það eru endalausar kannanir og funkera eins og boltaleikir,þessi tapaði í dag,en vinnur (á) næst. Spyrjum að leikslokum. Mál málanna er að skila þessari umsókn til Esb. það eru svo ótrúlega margir heitir á móti inngöngu,þar eru fólk úr öllum flokkum,einnig þeim nýju sem stofnaðir voru fyrir seinustu kosningar. Við eigum samleið og munum nýta hana til bjargar Íslandi.

Helga Kristjánsdóttir, 1.5.2014 kl. 01:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Jónsson

Höfundur

Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson

Hefur mikla reynslu í pólitík, sveitar-

stjórnarmálum og blaðaskrifum.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband